Hér má sjá helstu spurningar sem hafa borist umsjónarhóp Vegrúnar og svör við þeim. Ef þú finnur ekki svar við þinni spurningu hér, þá er hægt að senda tölvupóst á vegrun@godarleidir.is og við svörum þér eins fljótt og mögulegt er.
Ég finn ekki myndmerki sem mig vantar. Má ég bæta eigin merki við, eða er hægt að fá það teiknað?
Myndmerkin eru sá hluti Vegrúnar-kerfisins sem hefur verið einna mest uppfærður síðan kerfið var tekið í notkun. Gerð voru á annað hundrað myndmerki í upphafi og síðan hafa bæst við viðbætur jafnt og þétt. Engu síður er ljóst að þarfirnar eru ólíkar og oft á tíðum þörf á mjög sérstæðum myndmerkjum til að leysa mjög afmörkuð verkefni.
Við höfum því boðið upp á að bæta við myndmerkjum eftir þörfum, yfirleitt notendanum að kostnaðarlausu. Við hvetjum notendur til að gera ekki sín eigin merki, heldur fara í gegnum kerfið hér og fá þau sérteiknuð. Ástæðan er að þannig geta fleiri notendur notað þau (þar sem við bætum þeim við á vefinn) og um leið getum við passað að hvert merki sé teiknað inn í staðla kerfisins.
Ef merkið er þess eðlis að líklegt sé að aðrir notendur geti notað þau, er ekki rukkað fyrir gerð merkisins … heldur greiðir eigandi kerfisins fyrir vinnuna.
Ekki eru gerð myndmerki sem innihalda vörumerki eða aðrar upplýsingar sem aðeins eiga við einn tiltekinn aðila. Í slíkum dæmum bendum við á að setja upplýsingar inn sem myndir.
Beiðni um sérteikningar á myndmerkjum skal senda á vegrun@godarleidir.is.
Verð ég að nota undirstöðurnar sem talað er um í Vegrúnu, eða má ég breyta þeim?
Vegrún er mátkerfi (e. modular design system), sem þýðir að tæknilega séð er hægt að nota kerfið í heild sinni — eða hluta — eftir því hvað hentar hverjum stað og verkefni. Að því sögðu eru þær lausnir sem eru lagðar til hér í kerfinu prófaðar með allar helstu aðstæður í huga, þannig að ef notandinn vill breyta út fyrir einhverja hluta, er það alfarið á eigin ábyrgð.
Það eru dæmi um að t.d. viðarstoðir henti illa, og þá hvetjum við notendur til að velja efni sem hentar þeim betur. (Hér má t.d. nefna að ef skilti eru staðsett innan um hesta, eiga þeir til að nota viðarstoðir til að klóra sér við og skekkja skilti með tímanum.)
Einnig hafa komið fyrirspurnir um hvort hægt sé að finna léttari lausnir á festingum, sem er auðveldara að flytja út fyrir algengar gönguleiðir. Þetta hefur verið tekið í skoðun, en ekki liggja fyrir prófanir til að staðfesta stöðugleika.
Má hver sem er hanna og smíða úr kerfinu?
Já, Vegrún er opið öllum til notkunar. Ítarlegar leiðbeiningar um framsetningu á útliti, val á skiltum og fleira er að finna í þessari handbók.
Má setja kerfið í aðra liti en eru skilgreindir í kerfinu?
Fræðilega séð er ekkert bannað, en það ber að hafa í huga að litirnir sem eru skilgreindir eru sérstaklega valdir með læsileika í huga. Það hafa verið gerðar tilraunir með að setja kerfið í aðra liti, t.d. með því að nota lit bæjarfélags. Á meðan þetta getur virkað, er líka oft stutt í að aðgengi upplýsinga á skiltunum verði óaðgengilegra út af verri „contrast“ í litum. Við hvetjum því notendur til að nýta þá liti sem eru í kerfinu, enda valið nokkuð fjölbreytt og ætti að geta passað vel við flestar aðstæður.