6

Spurt og svarað

Hér má sjá helstu spurn­ingar sem hafa borist umsjón­arhóp Vegrúnar og svör við þeim. Ef þú finnur ekki svar við þinni spurn­ingu hér, þá er hægt að senda tölvu­póst á vegrun@godar­leidir.is og við svörum þér eins fljótt og mögu­legt er.

Ég finn ekki myndmerki sem mig vantar. Má ég bæta eigin merki við, eða er hægt að fá það teiknað?

Mynd­merkin eru sá hluti Vegrúnar-kerf­isins sem hefur verið einna mest uppfærður síðan kerfið var tekið í notkun. Gerð voru á annað hundrað mynd­merki í upphafi og síðan hafa bæst við viðbætur jafnt og þétt. Engu síður er ljóst að þarf­irnar eru ólíkar og oft á tíðum þörf á mjög sérstæðum mynd­merkjum til að leysa mjög afmörkuð verk­efni.

Við höfum því boðið upp á að bæta við mynd­merkjum eftir þörfum, yfir­leitt notend­anum að kostn­að­ar­lausu. Við hvetjum notendur til að gera ekki sín eigin merki, heldur fara í gegnum kerfið hér og fá þau sérteiknuð. Ástæðan er að þannig geta fleiri notendur notað þau (þar sem við bætum þeim við á vefinn) og um leið getum við passað að hvert merki sé teiknað inn í staðla kerf­isins.

Ef merkið er þess eðlis að líklegt sé að aðrir notendur geti notað þau, er ekki rukkað fyrir gerð merk­isins … heldur greiðir eigandi kerf­isins fyrir vinnuna.

Ekki eru gerð mynd­merki sem inni­halda vörumerki eða aðrar upplýs­ingar sem aðeins eiga við einn tiltekinn aðila. Í slíkum dæmum bendum við á að setja upplýs­ingar inn sem myndir.

Beiðni um sérteikn­ingar á mynd­merkjum skal senda á vegrun@godar­leidir.is.

Verð ég að nota undirstöðurnar sem talað er um í Vegrúnu, eða má ég breyta þeim?

Vegrún er mátkerfi (e. modular design system), sem þýðir að tækni­lega séð er hægt að nota kerfið í heild sinni — eða hluta — eftir því hvað hentar hverjum stað og verk­efni. Að því sögðu eru þær lausnir sem eru lagðar til hér í kerfinu próf­aðar með allar helstu aðstæður í huga, þannig að ef notandinn vill breyta út fyrir einhverja hluta, er það alfarið á eigin ábyrgð.

Það eru dæmi um að t.d. viðar­stoðir henti illa, og þá hvetjum við notendur til að velja efni sem hentar þeim betur. (Hér má t.d. nefna að ef skilti eru stað­sett innan um hesta, eiga þeir til að nota viðar­stoðir til að klóra sér við og skekkja skilti með tímanum.)

Einnig hafa komið fyrir­spurnir um hvort hægt sé að finna léttari lausnir á fest­ingum, sem er auðveldara að flytja út fyrir algengar göngu­leiðir. Þetta hefur verið tekið í skoðun, en ekki liggja fyrir próf­anir til að stað­festa stöð­ug­leika.

Má hver sem er hanna og smíða úr kerfinu?

Já, Vegrún er opið öllum til notk­unar. Ítar­legar leið­bein­ingar um fram­setn­ingu á útliti, val á skiltum og fleira er að finna í þessari handbók.

Má setja kerfið í aðra liti en eru skilgreindir í kerfinu?

Fræði­lega séð er ekkert bannað, en það ber að hafa í huga að litirnir sem eru skil­greindir eru sérstak­lega valdir með læsi­leika í huga. Það hafa verið gerðar tilraunir með að setja kerfið í aðra liti, t.d. með því að nota lit bæjar­fé­lags. Á meðan þetta getur virkað, er líka oft stutt í að aðgengi upplýs­inga á skilt­unum verði óaðgengi­legra út af verri „contrast“ í litum. Við hvetjum því notendur til að nýta þá liti sem eru í kerfinu, enda valið nokkuð fjöl­breytt og ætti að geta passað vel við flestar aðstæður.